Skuggabrúin - þríleikur
Skuggabrúin er þríleikur sem gerist í fjarlægri framtíð. Jörðin er eyðileg og myrk, stjörnurnar slokkna á himni, og ný tegund mannfólks, stjarneygingar, berst fyrir lífi sínu á Norðurheimskautinu. En þrátt fyrir að mannkynið sé horfið, eru menjar um það í ísnum og skuggabrúin, helsta afrek mannfólksins, umlykur jörðina sem nágrind. Fyrsta bókin, Skuggabrúin (2022), opnar kaldan og myrkan heim fyrir lesendum; annað bindið, Svikabirta (2023), er morðsaga á mörkum furðusögu og vísindaskáldskapar; þriðja bókin, Heiðmyrkur (áætluð 2025), mun loka sögunni bæði í fortíð og framtíð. Örlög stjarneyginganna Dimmbrár og Hnikars liggja sem rauður þráður gegnum allt verkið.

Skuggabrúin
Fyrsti hluti - Storytel 2022 & Sögur útgáfa 2023
„Dimmbrá skaut ómennskum augum til stjörnunnar sem tindraði yfirgefin í víðáttu myrkursins.“
Í fjarlægri framtíð, á ísilagðri jörð, hafa allar stjörnurnar slokknað nema ein; án hennar væri vetrarmyrkrið algert. Þegar síðasta stjarnan hverfur verða Dimmbrá og Hnikar viðskila og hrekjast á flótta um heimskautið. Ekki er allt sem sýnist og alls staðar grúfir myrkrið yfir, hyldjúpt og kalt. Hvað varð um stjörnuna, hvernig tengist hún skuggabrúnni — verður hægt að afstýra almyrkva?
Skuggabrúin er fyrsti hluti í samnefndum þríleik. Sagan er spennuþrungin og heillandi, frásögn um ofdramb og svik, vetrarkulda og hlýju, ljós og myrkur.
Kápa: Margrét Helga Weisshappel
Svikabirta
Annar hluti - Storytel & Sögur útgáfa 2023
„Á ísbreiðunni ofan við þorpið læddist skuggi ...“
Fáeinum árum eftir að himnarnir opnuðust eru grimmileg morð framin á heimskautinu. Sú eina sem getur stöðvað morðingjann er máttug norn sem er fangelsuð í fjarlægu landi. Agni, listhagur pörupiltur í neðanjarðarborginni Neðra, leggur á flótta eftir að hafa verið dæmdur til dauða. Brátt flækist hann í ógnvænlega atburðarás og tekst á hendur ferðalag yfir íshelluna í von um að kaupa frelsi nornarinnar og binda enda á illvirkin – en skugginn sem læðist er ávallt skrefi á undan.
Örlög stjarneyginganna Dimmbrár, Hnikars og hrafnsins Uglu, sem lesendur skildu við þegar Skuggabrúin féll, fléttast með óvæntum hætti inn í sprennuþrungna og myrka frásögn.
Í Svikabirtu eru lesendur dregnir enn lengra inn í hélaðan heim Skuggabrúarinnar, sem vakti mikla athygli og einróma lof gagnrýnenda. Svikabirta er morðsaga á mörkum fantasíu og vísindaskáldskapar – frásögn um líf og dauða; ljós og myrkur; trú, von og hefnd.
Kápa: Margrét Helga Weisshappel
